Slitastjórn Glitnis býst við því að tilboð í 95% hlut í Íslandsbanka geti borist félaginu fyrir lok þessa mánaðar. Páll Eiríksson, sem sæti á í slitastjórninni, segir við Bloomberg að engar ákvarðanir hafi verið teknar en slitastjórnin sé bjartsýn á að viljayfirlýsing um sölu verði gerð fyrir árslok.

Þá hefur slitastjórn ráðið StormHarbour LP sem ráðgjafa við sölu á Íslandsbanka. Páll segir í samtali við Bloomberg að þegar sölu á bankanum sé lokið muni Seðlabankinn Íslands veita Glitni undanþáguheimild til þess að ganga frá nauðasamningum.

Slitastjórn Glitnis greindi frá því í lok síðustu viku að nokkrir aðilar hefðu sýnt áhuga á að kaupa hlut í bankanum. Þar er meðal annars að ræða aðila frá Asíu, Bandaríkjunum og Norðurlöndunum.