Fjárfestingarbankinn UBS hefur boðist til að kaupa Credit Suisse fyrir allt að 1 milljarða dali, eða um 140 milljarða króna. Svissnesk stjórnvöld undirbúa nú lagabreytingu til að komast hjá atkvæðagreiðslu meðal hluthafa um viðskiptin sem vonast er til að klárist um helgina.

Tilboð UBS felur í sér að hluthafar Credit Suisse fái 0,25 franka á hlut greitt í hlutabréfum UBS, samkvæmt heimildarmönnum Financial Times. Um er að ræða aðeins brot af 1,86 franka dagslokagengi Credit Suisse á föstudaginn.

UBS fer einnig fram á klausu sem felur í sér að viðskiptin gangi til baka ef skuldatryggingarálag bankans eykst um 100 punkta eða meira.

Heimildarmenn FT árétta að aðstæður séu kvikar og óvíst sé hvort framangreindir skilmálar haldist óbreyttir eða hvort af viðskiptunum verði. Þá hafi skilmálarnir ráðist af stórum hluta af aðkomu seðlabanka og fjármálaeftirliti Sviss.

Thomas J. Jordan, bankastjóri Seðlabanka Sviss, að yfirgefa skrifstofur fjármálaráðuneytis Sviss í morgun.
© epa (epa)

Nokkrir viðmælendur FT sögðu að kjörin væru ósanngjörn fyrir Credit Suisse og hluthafa bankans. Aðrir gagnrýndu áform stjórnvalda um að fara fram hjá stöðluðum reglum um stjórnarhætti til að komast hjá atkvæðagreiðslu hjá hluthöfum UBS.