Bændasamtök Íslands hafa ákveðið að ganga ekki til viðræðna um sölu á Hótel Sögu á grundvelli þeirra tilboða sem fram hafa komið. Þetta kemur fram í Bændablaðinu .

Þar segir að í tilkynningu frá Bændasamtökunum komi fram að það sé mat stjórnar samtakanna að hagstæðara sé að halda áfram góðum rekstri hótelsins fremur en að ganga að fyrirliggjandi tilboðum.

„Því miður bárust okkur ekki nægilega hagstæð tilboð til að skynsamlegt sé að selja eignina á þessum tímapunkti. Okkar markmið er að ávaxta eignir samtakanna með sem bestum hætti. Þegar við lögðum mat á fyrirliggjandi tilboð komumst við að þeirri niðurstöðu að á þessum tímapunkti þjónaði áframhaldandi rekstur hótelsins betur því markmiði,“ segir Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna um málið.