Búist er við því að þeir aðilar sem hafa lýst yfir áhuga á að kaupa nýtt hlutafé í Byr hf. muni ákveða á morgun hvort þeir skili inn óskuldbindandi tilboði. Viðskiptablaðið hefur þegar fengið staðfest að Íslandsbanki, Arion banki, Landsbanki og MP banki hafi kynnt sér málið og fengið aðgang að rafrænu gagnaherbergi með upplýsingum um stöðu bankans. Gagnaherbergið var opnað í byrjun síðustu viku. Heimildir Viðskiptablaðsins herma þó að áhugasamir kaupendur vilji flestir meiri tíma til að fara yfir gögnin. Ekki hafði verið orðið við þeirri beiðni þeirra í gær. Stefnt er að því að sala á nýju hlutafé í Byr verði frágengin um miðjan júlí næstkomandi. Í yfirstandandi söluferli er verið að selja nýtt hlutafé upp á 14,6 milljarða króna að nafnvirði. Áhugasömum er einnig heimilt að bjóða í hlutafé slitastjórnar Byrs sparisjóðs (16,3 milljarðar að nafnvirði) og íslenska ríkisins (900 milljónir að nafnvirði).