144 tilboðum af 149 í hlutafjárútboði Iceland Seafood International hf. var tekið af stjórn félagsins. Alls voru 225 milljón hlutir boðnir út og fengust fyrir þá 2.138 milljón krónur. Þetta kemur fram á vef Kviku en bankinn annaðist útboðið. Heildarandvirði tilboða nam tæpum þremur milljörðum króna.

Rúmlega 20,2 milljón hlutir voru seldir til fjárfesta í tilboðsbók A en afgangurinn til fjárfesta í tilboðsbók B. Lokagengi beggja bóka var 9,50 krónur á hlut. Fjárfestar í tilboðsbók A skiluðu áskriftum á verðbilinu 9,4-9,82 fyrir 100 þúsund krónur til 10 milljón krónur.

Í tilboðsbók B var tekið við áskriftum yfir 10 milljón krónum á lágmarksverðinu 9,40. Útboðsgengi var 9,50 og fengu fjárfestar sem tilgreindu lægra verð í áskrift sinni engu úthlutað. Skerðing í bókinni var að öðru leyti hlutfallsleg.

„Það er ánægjulegt að sjá þann mikla áhuga og stuðning sem fjárfestar hafa sýnt Iceland Seafood með þátttöku sinni í hlutafjárútboði félagsins. Sá áhugi sem félaginu var sýndur í hlutafjárúboðinu er gott veganesti fyrir skráningu á aðalmarkað Nasdaq. Við hjá Iceland Seafood hlökkum til að takast á við framtíðina og bjóðum nýja hluthafa velkomna í hópinn,“ er haft eftir Bjarna Ármannssyni, forstjóra Iceland Seafood, í fréttinni.

Fyrirtækið hyggur á skráningu á Aðalmarkað Kauphallarinnar og er ráðgert að viðskipti með bréf félagsins hefjist eftir viku. Skráningin er háð fyrirvara um endanlega skjalagerð en gert er ráð fyrir að Kauphöllin tilkynni um fyrsta viðskiptadag bréfanna með dags fyrirvara.