Tónlistarútgefandinn EMI bauð 4,2 milljarða bandaríkjadali (313 milljarðar króna) í Warner Music en tilboðinu var hafnað, segir í frétt Guardian Unlimited.

Þetta er þriðja yfirtökutilraun EMI á Warner Music á síðustu sex árum. EMI er þriðji stærsti tónlistarútgefandi á heimsvísu en Warner Music er sá fjórði í röðinni.

Sagt er í fréttinni að Warner Music vilji fá hærra tilboð ef þeir eigi að gefa færi á að opna aftur fyrir samningaviðræður. Aftur á móti er sagt að EMI líti svo á að þeir séu í raun eini möguleikinn ef eigendur félagsins vilji losa um eign sína.

Ef fyrirtækin að sameiningu hefði orðið væri markaðhlutdeild þess 24,7% á heimsvísu, rétt á eftir Sony BMG sem er með 25,5% markaðshlutdeild og Universial Music sem ræður yfir 28,3% af markaðinum.

Útgáfurnar tvær hafa þó ekki sameinast og EMI er með 13,3% markaðshlutdeild og Warner Music er með 11,3%.

Það að Warner Music hafnaði tilboðinu eru vonbrigði, að mati greinanda hjá Numi Securities, "því rökin fyrir sameiningunni eru sterk."