Stjórn Hands Holding hefur gengið að tilboði frá Frosta Bergssyni í Opin kerfi á Íslandi. Opin kerfi hafa hingað til verið hluti af Opin Kerfi Group, móðurfélagi Kerfa í Danmörku og Svíþjóð, sem er í eigu Hands Holding. Teymi, stærsti hluthafi Hands Holding með 48,7% hlut, hefur áður lýst áhuga á að selja eign sína í Hands Holding ef ásættanlegt tilboð bærist. Greint er frá þessu á Vegvísi Landsbankans.

Eins og greint var frá í umfjöllun Greiningardeildar um uppgjör Teymis fyrir 2. ársfjórðung kom fram hjá stjórnendum Teymis á kynningarfundinum að nokkur tilboð hefðu borist í einstakar einingar Hands Holding. Þeir sögðust þó vera tregir til að leysa upp félagið nema það sæi fyrir endann á því.


Meðal fyrirtækja í eigu Hands Holding eru Opin Kerfi Group, Landsteinar Strengur, Hugur/Ax, Hands Danmörku og SCS í Bandaríkjunum. Hlutdeildarhagnaður Teymis vegna Hands Holding nam 201 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi, en gekk rúmlega til baka á öðrum ársfjórðungi þegar tapið nam 218 m.kr. Bókfært virði Hands Holding hlutarins er 2,4 ma.kr. Verði Opin kerfi á Íslandi seld frá móðurfélaginu vaknar spurningin hvort sala allra eininga Hands Holding sé í sjónmáli eða hvort stjórnendur Teymis hafi breytt stefnu sinni gagnvart uppskiptingu félagsins.