Umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, hefur með bréfi til Loftmynda ehf. hafnað tilboði fyrirtækisins í rekstur Landmælinga Íslands á Akranesi. Sem kunnugt er bauðst fyrirtækið til þess að taka yfir reksturinn og taldi sig með því geta sparað ríkinu milljónatugi.

Í frétt Skessuhornsins á Akranesi kemur fram að stjórnendur Landmælinga töldu tilboðið hins vegar ekki raunhæft og í raun væri ekki verið að bera saman sambærilega hluti. Þá kom til umræðu framtíð þeirra rúmlega 30 starfsmanna stofnunarinnar á Akranesi. Flest eru þau störf skipuð háskólamenntuðu fólki.

Í bréfi ráðherra kemur fram að ekki sé hægt að ganga að tilboðinu eins og það er sett fram. Segir ráðherra að verði talið rétt að bjóða úr rekstur Landmælinga Íslands yrði öllum sem áhuga hafa og getu til þess að sinna verkefninu boðin þátttaka.

Í frétt Skessuhorns kemur einnig fram að í bréfi ráðherra að á næstu vikum verði lagt fram frumvarp á Alþingi um starfsemi Landmælinga. Í því frumvarpi sé gert ráð fyrir að hlutverk stofnunarinnar verði takmarkað enda hafi einkaaðilar að undanförnu tekið að sér ýmis verkefni sem áður voru á könnu hennar enda hafi á síðustu misserum verið unnið að því að draga Landmælingar smám saman út úr samkeppnisrekstri.