Fimm milljarða Bandaríkjadala yfirtökutilboði Ruberts Murdochs í bandaríska útgáfufélagið Dow Jones, sem meðal annars gefur út dagblaðið Wall Street Journal, var hafnað í gær af ráðandi hluthöfum félagsins. Þrátt fyrir að tilboðinu hafi verið hafnað er óljóst hvort Bancroft fjölskyldan, sem á 24% hlut í Dow Jones og fer með um 62% atkvæða í fyrirtækinu, er andvíg tilboðinu eða sé einungis að reyna að fá News Corp., fjölmiðlafélag Murdoch, til að hækka tilboð sitt enn frekar, en klofningur varð á meðal hluthafa um hvort rétt væri að fallast á tilboðið.

Það hefur ýtt undir þann orðróm að von sé á tilboðum frá öðrum fjölmiðlasamsteypum eða fjárfestingarsjóðum, sem gæti leitt til verðstríðs um Dow Jones. General Electric - sem er eigandi að CNBC viðskiptasjónvarpsstöðinni - og bandaríska dagblaðið Washington Post hafa verið nefnd til sögunnar í þessu samhengi.

Samkvæmt heimildarmönnum Financial Times sem vel þekkja til málsins var tilboð Murdoch lagt fyrir stjórn Dow Jones fyrir tveimur vikum síðan. Yfirtökutilboðið hljóðaði upp á 60 dollara fyrir hvern hlut og að greitt yrði með peningum. Í kjölfar þess að fréttir bárust af tilboðinu á þriðjudaginn hækkaði gengi bréfa í Dow Jones um 57%, eða upp í 57,28 dollara, áður en ákveðið var að loka fyrir frekari viðskipti með bréfin.

Það hefur lengið legið ljóst fyrir að Murdoch ásældist Wall Street Journal sökum þeirrar hægri sinnuðu ritstjórnarstefnu sem blaðið aðhyllist. En núna á allra síðustu mánuðum hefur hann hins vegar horft til yfirtöku á blaðinu sem hagkvæma leið til að efla stöðu sína á markaði áður en hann stofnar viðskiptakapalstöð sem hann hyggst hleypa af stokkunum síðar á þessu ári. Í viðtali sem tekið var við Murdoch á sjónvarpsstöðinni Fox News - sem News Corp. er eigandi að - sagði hann að Wall Street Journal væri "stærsta blað Bandaríkjanna - eitt það stórkostlegasta í heiminum. En það þarf að vera hluti af stærra fyrirtæki til þess að hægt sé að þróa það enn frekar."

Hlutabréf í News Corp. féllu um 4% í gær sökum þess að fjárfestar hafa miklar efasemdir um ákvörðun Murdoch að fjárfesta í dagblaðastarfsemi á sama tíma og lesendur og auglýsendur eru í síauknum mæli að færa sig yfir á internetið.