Það hefur ekki farið fram hjá neinum að kyrrsetning Boeing 737 MAX-vélanna hefur haft töluverð áhrif á Icelandair sem og önnur flugfélög sem voru með vélarnar í flota sínum. Að sögn Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair Group, hefur kyrrsetningin eðli málsins samkvæmt haft töluverð neikvæð áhrif á félagið. „Í fyrsta lagi hefur þetta haft og mun hafa töluverð neikvæð áhrif á rekstur félagsins á háannatíma. Við höfum ekki getað gripið þau tækifæri sem við annars hefðum gert með Max-vélarnar í rekstri. Við vorum með uppstillingu á flotanum og leiðakerfinu áður en það mál kom upp þar sem við sáum fram á svigrúm til þess að bæta talsvert í vöxtinn með sama flota. Út af kyrrsetningu Max-vélanna þá höfum við ekki náð að koma þeim vexti til framkvæmda heldur höfum við þurft að skera niður frá því sem við áætluðum í byrjun.

Við erum að horfa á 5% minnkun í sætaframboði yfir sumarið frá því sem við höfðum áætlað og kynntum í byrjun ársins. Á móti kemur að við höfum breytt áherslunum frá markaðnum yfir hafið yfir á markaðina til og frá Íslandi og þannig náð að fjölga farþegum til Íslands talsvert þrátt fyrir þessar aðstæður. Auk þess höfum við leigt inn vélar til að minnka áhrifin en þau eru samt talsverð og kostnaðurinn sömuleiðis.“

Bogi segir að félagið haldi vel utan um þann kostnað og tapaðar tekjur sem kyrrsetningin er að valda félaginu. „Við tökum saman hver okkar kostnaður og tapaðar tekjur eru vegna þessa máls og munum upplýsa markaðinn um áhrifin þegar þau liggja fyrir. Við erum í viðræðum við Boeing um að fá þetta tjón bætt en þeirra forgangsröð, sem og okkar, er að koma vélunum í þjónustu á ný.

Ég held það sé mjög erfitt að segja til um það á þessu stigi hvað muni gerast og hvernig þetta fer nákvæmlega, hvað bæturnar verða miklar og í hvaða formi. Boeing er búið að eiga í miklu og löngu viðskiptasambandi við okkur og önnur flugfélög og vill eiga það viðskiptasamband áfram. Ég held það sé óhugsandi að Boeing muni ekki bæta flugfélögum skaðann en nákvæmlega hversu mikið og hvernig er erfitt að segja til um. Við erum enn að miða við að geta flogið vélunum á ný 15. september og vonumst til þess að það gangi eftir. Við vinnum mjög náið með Boeing, öðrum flugfélögum og flugmálayfirvöldum en eins og önnur flugfélög setjum við öryggið alltaf í forgang sem og hagsmuni farþega.“

Spurður út í öryggi vélanna og hvort hann telji að farþegar muni vilja fljúga með vélinni segir Bogi að vélarnar verði ekki settar á loft nema búið sé að tryggja öryggi þeirra og að hann sé tilbúinn til þess að fara með fyrsta fluginu eftir að þær fara aftur í loftið. „Ég er alveg tilbúinn til þess, ekki spurning. Það er gríðarlega vönduð og yfirgripsmikil vinna í gangi núna sem stýrt er af flugmálayfirvöldum í Bandaríkjunum og Evrópu, í samvinnu við Boeing og flugfélögin. Allir hafa hagsmuni farþega að leiðarljósi og vélarnar verða því ekki settar á loft með farþega nema yfirvöld meti það sem svo að vélarnar séu öruggar. Það mun taka tíma að vinna traust farþega á ný en ég tel að það muni ganga vel þegar málið hefur verið til lykta leitt.“

Nánar fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .