Björgólfur Thor Björgólfsson segist vera tilbúinn að auka fjárfestingu sína í síleska símafyrirtækinu WOM upp í milljarð Bandaríkjadali, um 125 milljarða króna, ef aðstæður verði réttar. Fréttablaðið sagði frá þessu í morgun.

Björgólfur hefur nú þegar lagt félaginu, sem hann segir arðbært, til 780 milljónir dala í gegn um fjárfestingafélag sitt Novator. Í samtali við síleska fjölmiðilinn Latercera segist hann tilbúinn að hækka þá upphæð í milljarð ef þróun næstu kynslóðar farsímatækni, 5G, gefur tilefni til þess.

Hann segir auk þess að til greina komi að skrá félagið á markað í Síle með tíð og tíma. Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í byrjun ársins er Björgólfur Thor með fjárfestingar í fleiri löndum í Suður-Ameríku í sigtinu.