Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hélt því fram á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda í dag að hann væri tilbúinn að skoða gagnkvæma eftirgjöf á tollum á landbúnaðarvörum. Íslenskar landbúnaðarafurðir væru fyllilega samkeppnishæfar við það sem þekktist í nágrannalöndum okkar.

Á fréttavef Bændablaðsins er eftirfarandi haft eftir Sigurði Inga : „Þá kemur sú spurning upp í hugann hvort Ísland eigi að semja um gagnkvæma niðurfellingu tolla á kindakjöti, til dæmis við ESB. Ég hef ekki mótað mér afstöðu í þessu máli, en við og þið þurfum  að hafa þor og kjark til að taka þessa umræðu. Ég minni á að ekki kemur til greina af Íslands hálfu að fella niður tolla einhliða. Slíkt gerist eingöngu með gagnkvæmum samningum."

Þá sagði hann að íslensk matvæli hefðu góða ímynd á erlendri grundu og jafnframt væri eðlilegt að fluttur væri inn sá matur sem ekki væri hægt að framleiða hér á landi.