Fulltrúar borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna í Reykjavík heimsóttu útvegsmenn í Útvegsmannafélagi Reykjavíkur á miðvikudag og kynntu sér starfsemi nokkurra útgerðarfyrirtækja í borginni. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, nýkjörinn leiðtogi borgarstjórnarflokksins, lét hafa eftir sér við það tækifæri að sjálfstæðismenn væru reiðubúnir að endurskoða fyrirhugaðan flutning slippsins frá Reykjavík.

Útvegsmenn komu á framfæri sjónarmiðum sínum einkum hvað varðar framtíð hafnarinnar. Lýstu þeir áhyggjum sínum vegna fyrirhugaðs flutning slippsins úr borginni og skerðingar á athafnasvæðinu við höfnina, m.a. með byggingu tónlistarhúss.

Nefnt hefur verið að starfsemi slippsins kynni að verða flutt á Grundartanga, en útvegsmenn töldu að ef af slíkum áformum yrði væri líklegra að menn sæktu þjónustu til Hafnarfjarðar, fremur en á Grundartanga, enda liggi Hafnarfjarðarhöfn betur við. Ef starfsemi slippsins legðist af í Reykjavík myndi fjöldi starfa flytjast brott, bæði þeirra sem við slippinn vinna, en einnig störf sem tengjast þjónustu við skipin.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sagði að mögulegt væri að endurskoða áform um íbúðabyggð á núverandi athafnasvæði slippsins, en ekki væri unnt að hrófla við staðsetningu tónlistarhúss, enda allir samningar þar að lútandi undirritaðir.