Stofnendur lággjaldaflugfélagsins Play hafa boðist til að minnka hlutdeild sína í Play niður í 30% og þeir fjárfestar sem leggi félaginu til 1,7 milljarða í nýtt hlutafé fái þá á móti eftirstandandi 70%. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Líkt og fjallað hefur verið um þá hafa stofnendur Play ásamt Íslenskum verðbréfum unnið að umræddri fjármögnun. Áður höfðu stofnendur Play gert ráð fyrir að þeir myndu sjálfir, ásamt starfsmönnum, eiga helmingshlut í fyrirtækinu og fjárfestar eftirstandandi 50%. Þessar hugmyndir hafa þó ekki vakið kátínu meðal fjárfestanna, sem hafa verið mótfallnir því að stofnendurnir eignist svo stóran hlut í flugfélaginu.

Fjármögnunin virðist hafa gengið nokkuð brösulega hjá Play og því hafa stofnendurnir boðist til að minnka eignarhlut sinn til að freista þess að fá fjármagn frá fjárfestum. Á fundi þar sem Play kynnti áform sín, sem fór fram í byrjun sl. nóvembermánaðar, var sagt frá því að til stæði að hefja sölu flugmiða um sl. mánaðamót. Þeim áformum hefur þó verið frestað og stefnir Play nú að því að miðasala hefjist fyrir áramót.