Sósíaldemókratar í Þýskalandi eru tilbúnir að hefja viðræður við Angelu Merkel, leiðtoga Kristilegra demókrata, um að hún leiði minnihlutastjórn og ná þannig að leysa úr þeirri stjórnarkreppu sem er komin upp að því er kemur fram á Bloomberg .

Þetta eru fyrstu merki þess að Sósíaldemókratar séu tilbúnir til þess að koma að stjórnarmyndunarviðræðum og aðstoða Merkal við að halda völdum.

Martin Schulz, leiðtogi Sósíaldemókrata, er undir mikilli pressu um að ganga jafnvel enn lengra og hefja viðræður um aðkomu flokksins að ríkisstjórn undir forystu Merkel. Schulz hafði í kjölfar kosninganna sagt að flokkurinn væri ekki tilbúin til þess að fara í ríkisstjórn aftur með Kristilegum demókrötum en hann varð fyrir miklu fylgistapi í þingkosningunum.

Aðdragandinn málsins er sá að Kristilegir demókratar, Græningjar og Frjálslyndir demókratar höfðu reynt að ná saman um myndun ríkisstjórnar en eftir um fjögurra vikna viðræður slitnaði upp úr stjórnarmyndunarviðræðum. Forseti Þýskalands kallaði í kjölfarið eftir því að allir stjórnmálaflokkar landsins risu undir ábyrgð og reyndu eftir fremsta megni að tryggja stöðugleika í stjórnarfari landsins.