Tilbúnir matarpakkar þar sem innifaldar eru allar máltíðir dagsins njóta nú sífellt meiri vinsælda. Þeir sem selja tilbúna matarpakka segja mikla aukningu hafa orðið nú í byrjun janúar og greinilegt að landinn sé að taka mataræði sitt í gegn.

Sjálfsprottnar vinsældir

Verð á matarpökkum
Verð á matarpökkum
© vb.is (vb.is)
Upphafið að matarpökkunum liggur hjá einkaþjálfurum sem útbjuggu matarpakka fyrir þröngan hóp viðskiptavina sem slógu svona rækilega í gegn að hátt í 10 fyrirtæki selja nú slíka pakka. Verðið á dagsskammtinum er allt frá 3.290 krónur upp í 5.490 krónur fyrir daginn. Flestir gefa upp heildarhitaeiningafjölda pakkanna og er oft hægt að velja pakka eftir fjölda hitaeininga og hækkar verðið í takt við fjölgun hitaeininga.

Pakkarnir eru ýmist sóttir á viðkomandi veitingahús, bensínstöðvar eða keyrðir heim gegn gjaldi.

Sparar tíma

Elías Guðmundsson, einn af eigendum Glóar, segir þau hafa byrjað að bjóða upp á matarpakka að kröfu viðskiptavina sinna sem vildu fá hráfæðispakka. Hann segir matarpakkana innihalda í kringum 1.500 hitaeiningar en fólk sé að leita eftir jafnvægi í mataræðið en ekki að telja hitaeiningarnar. Fólk léttist oftast eitthvað í leiðinni en það sé einungis jákvæður fylgifiskur. „Það er allt á fullu í þessum matarpökkum og það eykst og eykst,“ segir Elías.

Hann segir algengast að fólk taki viku og viku í einu en hann fær sér oft matarpakkana sjálfur í einhvern tíma og að það sem hafi komið honum mest á óvart var tímasparnaðurinn sem því fylgdi.

Dýr valkostur í lengri tíma

Mánaðarlegur kostnaður við matarpakkana ef einhver ætlar eingöngu að lifa á þeim í heilan mánuð er yfir 100 þúsund krónur sem er töluvert hærra en flestir greiða fyrir mat á mánuði. Flestir taka þetta í ákveðinn tíma í einu eða fá matarpakka reglulega, t.d. einn eða tvo fasta daga í viku. Algengt er einnig að fólk taki pakkana í viku með reglulegu millibili.