Það vakti athygli margra þegar hópur innlendra og erlendra fjárfesta keypti 5% hlut í Símanum stuttu fyrir skráningu fjarskiptafélagsins á markað. Hópurinn er leiddur af hollenska fjárfestinum Bertrand Kan sem hefur yfir 25 ára reynslu úr heimi fjarskiptabransans.

Aðdragandinn að hlutafjárútboði Símans var gagnrýndur harðlega, fyrst og fremst vegna þess að fjárfestahópurinn sem Kan tilheyrir keypti hlut sinn á genginu 2,5 á hlut og einnig vegna þess að Arion banki seldi vildarviðskiptavinum sínum hlut á 2,8 fyrir útboðið. Vegið meðalgengi í útboðinu var hins vegar 3,33 á hlut. Spurður að því hvaða skoðun hann hefði á þeirri gagnrýni segir Kan að hún hafi verið tilefnislaus.

„Hún snerist um að verðið sem við fengum fyrir hlutinn hafi verið lægra en útboðsgengið,“ segir hann. „Ég held að það sé mikilvægt að hafa það í huga að jafnvel þótt gengið hafi verið frá viðskiptunum í sumar þá voru viðræður um verðið löngu hafnar. Þá var alls ekki skýrt hvenær og hvernig gengið yrði frá hlutafjárútboðinu. Það er líka vert að taka það fram að okkar fjárfesting var ekki eins og hjá þeim sem keyptu hlut í útboðinu. Okkar bréf heyra undir samkomulagi sem er með sérstakri kvöð um að við getum ekki selt bréfin fyrr en árið 2017, sem eykur áhættu okkar verulega. Það er auðvelt að dæma svona hluti eftir á en það lá ekkert skýrt fram um útboðsgengið þegar við gengum frá samningum. Tímasetning hlutafjár­ útboðsins var ekki ákveðin og við vorum (og erum þangað til við getum selt hlutinn okkar) berskjaldaðir að fullu fyrir markaðssveiflum í millitíðinni. Þess vegna kemur það mér ekki á óvart að það hafi verið munur á genginu sem við keyptum á og útboðsgenginu. Viðskiptin voru á milli seljandans, Arion banka, og okkar fjárfestanna sem kaupenda þannig að Síminn kom ekki að þessu máli. Ég held að þau hafi ekki skaðað orð­ spor fyrirtækisins með neinum hætti.“

Nánar er rætt við Bertrand Kan í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .