Fyrir síðustu helgi fór fram aðalmeðferð í máli þrotabús Mainsee Holding gegn Glitni HoldCo en þrotabúið krefst þess að ráðstöfun ríflega 6,6 milljóna evra til félagsins Salt Investment verði rift. Þrotabúið er nær galtómt en rekstur málsins er greiddur úr vasa Björgólfs Thors Björgólfssonar.

Málið sjálft á rætur að rekja til áranna fyrir hrun en helstu persónur og leikendur eru fyrrnefndur Björgólfur og Róbert Wessmann. Í september 2007 keypti Mainsee Holding þýska lyfjafyrirtækið Mainsee GmbH og tveimur dögum síðar keypti það samheitalyfjarekstur DeltaSelect GmbH. Kaupverð nam 50 milljónum evra en auk þess voru keyptar vörubirgðir fyrir 6,2 milljónir evra. Fjármunirnir til kaupanna voru fengnir að láni frá Glitni og gengust fyrrnefndir Björgólfur og Róbert undir sjálfskuldarábyrgð, þar sem hvor um sig ábyrgðist greiðslu helmings lánsins, vegna þessa.

Sá hluti sem ætlaður var til kaupa á birgðum var lagður inn á reikning Actavis en ekkert varð af þeim kaupum. Þess í stað enduðu fjármunirnir inn á reikningi Salt Investments en 94% hlutafjár í því voru í eigu Róberts Wessmann. Björgólfur stefndi Róberti, Salt Investments og Árna Harðarsyni, sem átti lítinn hlut í Salt, vegna þessa árið 2014 en hann taldi að  þeir hefðu í heimildarleysi fært fjármunina til Salt. Fréttaflutningur af því máli varð tilefni meiðyrðamáls þar sem Róbert stefndi Bjarna Ólafssyni, þáverandi ritstjóra Viðskiptablaðsins, en málinu lauk með sýknu árið 2015.

Máli Björgólfs gegn Róberti, Árna og Salt lauk einnig með sýknu í Hæstarétti árið 2017. Taldi dómurinn að tilfærsla fjármunanna hefði verið ólögmæt á sínum tíma. Skuldabréf vegna hennar, útgefið af Salt til Mainsee GmbH, hafi hins vegar verið gefið út í maí 2010. Í því hafi Salt orðið skuldari lánsins til Actavis fyrir skuldskeytingu og þar með brystu skilyrði fyrir greiðslu skaðabóta.

Það er að segja af Mainsee að það náði ekki að standa í skilum á lánum sínum og á endanum fékk Glitnir það í fangið. Félagið var nær eignalaust og skuldaði um 48 milljónir evra. Eina eignin var téð skuldabréf til Salt Investment. Það var heldur ekki mikið jákvætt að frétta hjá Salt en á árunum eftir hrun var eigið fé þess neikvætt um 4,8 milljarða króna. Litlar líkur voru því taldar á því að eina eign Mainsee Holding, umrædd skuld Salt við félagið, hefði eitthvert verðgildi. Á endanum var sú ákvörðun tekin af Glitni að taka yfir umrætt skuldabréf á bókfærðu virði, þá um 6,6 milljónir evra, gegn því að lækka skuld Mainsee Holding við hinn fallna banka.

Töldu ólíklegt að Björgólfur gæti greitt

Eftir hrun voru Björgólfur Thor og Róbert Wessmann í þeirri stöðu að þurfa að semja um uppgjör skulda sinna við bæði banka hér heima og erlendis. Meðal þess sem var þar til umræðu var umrædd sjálfskuldarábyrgð þeirra vegna lánveitingarinnar til Mainsee og félags að nafni AB Capital. Í skýrslum vitna fyrir dómi, sem meðal annars störfuðu hjá Glitni HoldCo, kom fram að samið hefði verið við Björgólf um að hann fengi kost á því að reyna að koma Actavis og pólska símfyrirtækinu Play í verð til að gera upp sínar skuldbindingar. Litlar líkur hafi verið taldar á því en ótrúlega hátt verð hafi fengist fyrir Actavis og því hafi Björgólfur náð að gera upp sína skuld.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .