Róbert Wessman hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ásakana Halldórs Kristmannssonar, náins samstarfsmanns til 18 ára, um „morðhótanir, líkamsárásir og svívirðilegar ásakanir“ Róberts í garð meintra óvildarmanna.

Í yfirlýsingunni segir hann að augljóst sé af bréfasendingum lögmanna Halldórs, Quinn Emanuel, að ásakanir hans séu gerðar í fjárhagslegum tilgangi enda komi þar fram kröfur um greiðslur til handa honum. Sjálfur sagði Halldór að engar fjárhagslegar kröfur væru gerðar á hendur Alvogen og Alvotech.

Sjá einnig: Sakar Róbert um morðhótanir og ofbeldi

Jafnframt vísar Róbert til innanhúsrannsóknar hjá Alvogen þar sem óháð alþjóðleg lögmannsstofa var fengin til að meta kvartanir Halldórs. Þar hafi tugir starfsmanna verið teknir tals, farið yfir fjölda gagna og niðurstaðan verið skýr. Til viðbótar hafi önnur óháð lögmannsstofa verið fengin til að staðfesta ferlið og niðurstöðurnar. Halldór sagði niðurstöður rannsóknarinnar vera augljósan „hvítþvott“ undir áhrifum Róberts.

„Fyrir mig eru þessar ásakanir mjög mikil vonbrigði enda vegið að mínum starfsheiðri og persónu. Mér þykir mjög miður að samstarfi okkar Halldórs til 18 ára hafi lokið með þessum hætti,“ segir Róbert að lokum.

Uppfært: Halldór Kristmannsson hefur sent frá sér aðra tilkynningu í kjölfar tilkynningar Róberts þar sem hann ítrekar að hann hafi ekki gert neinar fjárhagskröfur á hendur fyrirtækinu.

Yfirlýsingin Róberts í heild sinni:

Vegna fréttaflutnings í dag vegna ásakana Halldórs Kristmannssonar á hendur mér er nauðsynlegt að eftirfarandi komi fram.

Það er augljóst af bréfasendingum lögmanna Halldórs, Quinn Emanuel, að ásakanir hans eru gerðar í fjárhagslegum tilgangi enda koma þar fram kröfur um greiðslur til handa honum. Eins og fram hefur komið var fengin óháð alþjóðleg lögmannsstofa til að fara ofan í saumana á kvörtunum Halldórs. Talað var við tugi starfsmanna og farið yfir fjölda gagna og niðurstaðan var skýr. Til að tryggja enn betur trúverðugleika þeirrar skoðunar sem fram fór var önnur óháð lögmannsstofa fengin til að fara yfir ferli skoðunarinnar og staðfesta þá.

Fyrir mig eru þessar ásakanir mjög mikil vonbrigði enda vegið að mínum starfsheiðri og persónu. Mér þykir mjög miður að samstarfi okkar Halldórs til 18 ára hafi lokið með þessum hætti.

Róbert Wessman