Innbrot Iceland Express í persónuleg gögn Matthíasar Imsland eftir að honum var sagt upp störfum í september er skýrt brot á lögum um persónuvernd. Hann hefur þó ekki tekið ákvörðun um það hvort hann ætli að kæra það.

Matthías Imsland - Iceland Express
Matthías Imsland - Iceland Express
© BIG (VB MYND/BIG)

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Jóhannesi Árnasyni, lögmanni Matthíasar í kjölfar þess að sýslumaðurinn í Reykjavík hafnaði kröfu Iceland Express og eiganda þess, Pálma Haraldssonar, um lögbann á hendur honum. Matthíasi var sagt upp störfum rétt eftir miðjan september og hann sakaður um að hafa fegrað bókhaldið. Eins og greint var frá fyrir skömmu hefur Matthías gefið fullnægjandi skýringar á bókhaldinu. Þá kom fram fyrir nokkru að Iceland Express hafi aflað sér upplýsinga um þá sem Matthías ræddi við í síma eftir að hann hætti hjá fyrirtækinu og hann kominn á fullt skrið við stofnun nýs flugfélags. Í ljós kom að þar á meðal var starfsfólk Iceland Express og fyrirtæki sem áttu í viðskiptum við Iceland Express.

Í tilkynningu frá lögmanni Matthíasar segir: „Þessi niðurstaða er í fullu samræmi við okkar væntingar, enda lá alltaf ljóst fyrir að megintilgangur lögbannskröfunnar var að skaða orðspor skjólstæðings míns, fremur en nokkuð annað. Við lítum svo á að með þessu sé fullt atvinnufrelsi Matthíasar staðfest og vonum að þar með sé málarekstri gegn honum af hálfu Pálma og Iceland Express lokið - ekki síst í ljósi ummæla sem fallið hafa í fjölmiðlum um að félagið óttist ekki samkeppni. Sú mikla harka sem skjólstæðingur minn hefur verið beittur af hálfu Pálma Haraldssonar og Iceland Express hefur vakið athygli.“