Stjórnendur GAMMA héldu í dag fund með eigendum hlutdeildarskírteina í fagfjárfestasjóðnum GAMMA: Novus, þar sem kynnt var úttekt sérfræðinga Grant Thornton endurskoðunar á starfsemi GAMMA: Novus og Upphafs fasteignafélags, sem er að fullu í eigu sjóðsins, á árunum 2013-2019. Frá þessu segir í fréttatilkynningu.

Þar segir að tilefni úttektarinnar hafi verið að síðastliðið haust hafi komið í ljós, við skoðun nýs teymis hjá GAMMA, að virði GAMMA: Novus var verulega ofmetið.

„Val á sérfræðingum til að framkvæma skoðunina var með þeim hætti að skilgreindir voru þeir aðilar sem bjuggu yfir nægri sérfræðiþekkingu, en höfðu ekki komið að starfsemi fagfjárfestasjóðsins GAMMA: Novus eða Upphafs fasteignafélags slhf. áður. Stjórnendur GAMMA og Upphafs veittu Grant Thornton aðgang að öllum gögnum sem voru aðgengileg nýju teymi stjórnenda; bankayfirlitum, bókhaldsgögnum og skjölum félagsins," segir í tilkynningunni.

„Niðurstöður Grant Thornton um starfsemi Upphafs fasteignafélags eru að verulegur skortur var á formfestu við ákvarðanatöku og utanumhald með verkefnum innan félagsins. Þetta birtist m.a. í því að oftar en ekki var það einn einstaklingur sem sat við stjórnvölinn og stýrði framkvæmd félagsins, án virkar aðkomu eða eftirlits frá stjórn og/eða öðrum aðilum. Þá lágu í sumum tilfellum ekki til grundvallar verkum skriflegir samningar og ákvarðanir og rökstuðningur fyrir þeim voru ekki skjalfestar. Hvað rekstur sjóðsins varðar, þá kemur fram að virði eigna sjóðsins var metið með mismunandi hætti á milli ára og óljóst hvernig forsendur að baki verðmats voru fundnar í sumum tilfellum. Eftirstöðvar verka í eigu sjóðsins voru verulega vanmetnar, sem var leiðrétt haustið 2019 líkt og greint var í tilkynningu frá félaginu á þeim tíma. Þessi staða hefur leitt til algerrar endurskipulagningar á umgjörð félagsins."

Stjórnendur GAMMA hafa jafnframt, m.a. á grundvelli upplýsinga sem komu upp við skoðun Grant Thornton, tilkynnt greiðslur fleiri en eins samstarfsaðila Upphafs fasteignafélags til fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins til héraðssaksóknara.