Tilkynningu sérstaks saksóknara:

Í tengslum við rannsóknir embættis sérstaks saksóknara á málum tengdum Landsbanka Íslands fóru fram húsleitir á fimm stöðum í dag á höfuðborgarsvæðinu. Fjórir aðilar voru fyrr um morguninn færðir til skýrslutöku. Nánar tiltekið eru til rannsóknar millifærslur til MP banka og Straums fjárfestingabanka af reikningi Landsbankans í Seðlabanka Íslands og kaup Landsbankans á verðbréfum af sjóðum Landsvaka eftir lokun sjóðanna. Umrædd tilvik eru talin hafa átt sér stað 6. október 2008.

Til rannsóknar er grunur um meint brot á auðgunarbrotakafla hegningarlaga í tengslum við ráðstafanir á fjármunum bankans, nánar tiltekið skilasvik. Um er að tefla verulega fjárhagslega hagsmuni og rannsóknin tengist fjölda manns. Málunum var vísað til embættis sérstaks saksóknara með tilkynningu frá skilanefnd og slitastjórn Landsbanka Íslands í lok síðasta árs. Málin hafa verið til meðferðar síðan.

Aðgerðirnar í dag hafa um nokkurt skeið verið í undirbúningi og tóku 35 starfsmenn embættisins þátt í þeim auk lögreglumanna frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Úrskurðir til leitar voru kveðnir upp við Héraðsdóm Reykjavíkur. Yfirheyrslur hófust í morgun og er þess að vænta að þær standi fram á kvöld.