Magnús Einarsson, fasteignasali og einn af forsvarsmönnum Þórunnartúns 4, hefur sent frá sér tilkynningu vegna fréttar Viðskiptablaðsins um hótelbyggingu sem þar mun rísa.

Unnið er hörðum höndum að byggingu 93 herbergja hótels í Þórunnartúninu og greindi Viðskiptablaðið frá því að Keahotels myndi kaupa hótelið. Kom fram í fréttinni að núverandi eigendur ætluðu að selja bygginguna til Keahotels sem myndi ljúka byggingunni og opna þar hótel. Var þar farið með rangt mál að sögn Magnúsar.

Í tilkynningu Magnúsar kemur fram að engin áform séu um að selja hótelið óklárað, heldur munu núverandi eigendur ljúka byggingunni. Verði það svo afhent rekstraraðila fullbúið þann 1. september. Telur Viðskiptablaðið nokkuð víst að sá rekstraraðili verði Keahotels.

Hér má sjá tilkynningu Magnúsar í heild sinni:

Sem fulltrúi eigenda Þórunnartúns 4 sem reisa nú hótel í Þórunnartúni  langar mig að koma eftirfarandi á framfæri vegna fréttar VB.

Áform eigenda um að reisa 93 herbergja hótel sem afhent verður rekstraraðila fullbúið 1. september 2015 eru með öllu óbreytt.

Ýmsir aðilar hafa sýnt því áhuga að kaupa rekstrarfélagið og fasteignina fullbúna. Viðræður við aðila hafa átt sér stað um aðkomu að rekstri og kaup á húseigninni fullbúinni.  Ekki hefur verið gengið frá neinu í þeim efnum, enn sem komið er.

Byggingaframkvæmdum miðar vel og eru um 80 manns að vinna við framkvæmdina á degi hverjum, enda styttist í opnun hótelsins. Hótelið verður vandað 3. stjörnu borgarhótel.