Tilkynningar er að vænta frá FL Group [ FL ], að því er Júlíus Þorfinnsson, forstöðumaður samskiptasviðs fjárfestingafélagsins, segir við Viðskiptablaðið.

Tilkynningin gæti borist í kvöld, á morgun eða hinn, að sögn Júlíusar.

Í frétt Mbl.is segir að samþykkt hafi verið á stjórnarfundi FL Group í dag að taka félagið af markaði. 87% eigenda hlutafjár  hafa samþykkt að vera áfram í félaginu. Á hluthafafundi 9. maí verður eigendum 13% eignarhlutar boðin  hlutabréf í Glitni í skiptum fyrir hlut sinn í FL Group vilji þeir ekki vera áfram í félaginu.

Lífeyrissjóðir eiga um 3,5% hlut af þessum 13 prósentum en hin 10 prósentin skiptast á milli margra smærri hluthafa.

Í fréttinni segir að meðal þeirra eigenda sem ætla að vera áfram í félaginu eru eignarhaldsfélagið Styrkur, sem er í eigu Baugs og Kaldbaks og Fons, eignarhaldsfélag Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar.

Jötunn Holding ehf. á um 5% í Glitni og það eru þau bréf, sem boðin verða þeim hluthöfum, sem vilja út úr FL Group.

Eigendur Jötunn Holding eru breski kaupsýslumaðurinn Tom Hunter og Baugur auk Fons eignarhaldsfélags. Fjármálaeftirlitið hefur gert Jötni að selja bréf sín í Glitni vegna eignatengsla, segir í fréttinni.