Tilkynnt verður um vaxtaákvörðun Seðlabankans í dag kl. 10. Hana mun Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, tilkynna í jólapeysu en með því vill hann styðja við baráttuna gegn einelti.

Már tók áskorun í tengslum við Jólapeysuna 2014 , fjáröflunarverkefni Barnaheilla gegn einelti, og ákvað að næði hann því markmiði að safna 600 þúsund krónum í áheitum myndi hann tilkynna vaxtaákvörðun í jólapeysu. Nú stendur fjárhæðin í 604 þúsund krónum, sem þýðir að markmiðinu hefur verið náð.

Már kveðst vita hvað einelti geti verið skemmandi þar sem hann hafi orðið vitni að slíkri háttsemi á skólaárunum. Segir hann í myndbandi á áheitasíðu sinni að í dag stýri hann stórum vinnustað og vilji ekki hafa einelti þar. Þess vegna styðji hann átakið.