Frestur til að skila inn skilyrðislausum kauptilboðum í króatíska samheitalyfjafyrirtækið Pliva rennur út í dag, samkvæmt upplýsingum Dow Jones fréttastofunnar.

Acatvis hefur gert óformlegt kauptilboð í Pliva að virði tveir milljarðar dollara, eða í kringum 150 milljarðar íslenskra króna. Einnig er talið að bandaríska lyfjafyrirtækið Barr Pharmaceuticals hafi áhuga á að kaupa Pliva og Financial Times segir Barr tilbúið að greiða 2,1 milljarð dollara fyrir fyrirtækið.

Fjárfestingabankinn Deutsche Bank er ráðgjafi Pliva og samkvæmt heimildum Dow Jones eru sum kauptilboðin sem borist hafa bundin ákveðnum skilyrðum. Bankinn hefur því ákveðið að fara fram á að skilyrðislaus tilboð verði send ekki seinna en í dag og talið er að tilkynnt verði í næstu viku hvaða fyrirtæki fær að kaupa Pliva.

Auk Actavis og Barr er talið að nokkrir fjárfestingasjóðir hafi áhuga á að kaupa Pliva. Ekki hefur þó komið fram hvaða sjóðir gætu haft áhuga á króatíska fyrirtækinu, sem ákvað að fara í söluferli eftir að Actavis gerði óformlegt kauptilboð í félagið.

Pliva hafnaði fyrsta tilboði Actavis, sem hljóðaði upp á HKR570 á hlut, og í kjölfarið hækkaði íslenska fyrirtækið kauptilboðið um 11% í HKR630 á hlut, sem samsvarar um 150 milljörðum á núverandi gengi.

Actavis hefur tryggt sér fjármögnun til að styðja við hugsanlega yfirtöku á Pliva, en fyrirtækið fjármagnaði tvær stórar yfirtökur í Bandaríkjunum í fyrra með lánsfé. HSBC og JP Morgan hafa samþykkt að lána til kaupanna. Í fyrra keypti Actavis samheitalyfjafyrirtækið Amide fyrir 500 milljónir dollara og samheitalyfjaeiningu Alpharma fyrir 810 milljónir dollara.

Hagnaður Pliva dróst saman um 32% á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við sama tímabili í fyrra, í 30,2 milljónir dollara (2,25 milljarðar íslenskra króna) úr 44,2 milljónum dollara. Sölutekjur félagsins drógust saman um 17% í 283 milljónir dala. Hins vegar benda sérfæðingar á að ástæða samdráttarins sé að mestu leyti vegna þess að einkaleyfi félagsins á sýklalyfinu azithromycin hefur runnið út, en félagið hefur markvisst verið að selja frá sér frumheitalyfjastarfsemina