Geir H. Haarde, forsætisráðherra mun á morgun tilkynna um niðurstöðu viðræðna íslenskra stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF).

Þetta hefur Dow Jones fréttaveitan eftir Urði Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins.

Að sögn Urðar eru viðræður við IMF enn í gangi en hún vildi ekki staðfesta frétt Financial Times frá því í morgun þar sem sagt er að IMF muni lána Íslandi um 6 milljarða dala með aðstoð norrænna seðlabanka auk þess japanska.

Mattias Persson, deildastjóri hjá sænska seðlabankanum sagðist enga vitneskju hafa um slíkan samning í samtali við Dow Jones fréttaveituna og hið sama var upp á teningnum hjá finnska seðlabankanum þegar fréttaveitan leitaði upplýsinga þaðan.