Undir lok dags var tilkynnt um stærstu jöklabréfaútgáfu frá upphafi þegar Rabobank gaf út 40 milljarða króna til eins árs og styrktist krónan þegar þessar upplýsingar bárust, segir greiningardeild Landsbankans.

Gengi krónu styrktist um 1,2% í dag og er 125,7 stig.

?Fram að því hafði krónan styrkst töluvert sem ætla má að tengist útgáfunni að einhverju leyti. Samkvæmt okkar upplýsingum eru það fyrst og fremst bandarískir endafjárfestar sem keypt hafa þessi jöklabréf en þeir hafa fram til þessa lítið sem ekkert tengst fjárfestingum af þessu tagi.

Hvort þessi útgáfa er upphafið að frekari útvíkkun jöklabréfaútgáfu er erfitt að segja til um en reynslan af útgáfum í Evrópu bendir til þess að svo geti vel orðið,? segir greiningardeildin.

Stærsti jöklabréfaútgefandinn er KFW, sem á alls 93 milljarða króna útistandandi, samkvæmt upplýsingum frá Lánasýslu ríkisins.

Þar segir að Rabobank sé þriðji stærsti útgefandinn og fyrir útgáfuna í dag hafi hann átt 36 milljarða króna útistandandi.