Á fundi fjármálaráðherra G-8 ríkjanna sem haldinn var í þýsku borginni Essen um nýliðna helgi voru vogunarsjóðir eitt helsta umræðuefnið. Þjóðverjar, sem fara núna með forystu í þessum samtökum stærstu iðnríkja heimsins, náðu þar nokkuð óvænt að afla sér stuðnings annarra ríkja - einnig Bandaríkjanna og Bretlands - við tillögur sínar um vogunarsjóði, sem er ætlað að auka gagnsæi með starfsemi þeirra á heimsvísu.

Fyrirfram var búist við því að tillögur Þjóðverja næðu ekki fram að ganga, ekki síst vegna þeirrar andstöðu sem Bandaríkjamenn og Bretar höfðu áður sýnt málinu. Hins vegar ákváðu Þjóðverjar að láta af upphaflegum kröfum sínum um að starfsemi vogunarsjóða myndi lúta alþjóðlegu eftirliti; í staðinn var samþykkt á fundinum að reyna að hvetja vogunarsjóði til að eiga framkvæði að því að auka gagnsæi með starfsemi sinni. Þjóðverjar vonast aftur á móti eftir því að G-8 ríkin muni samþykkja áþreifanlegar aðgerðir um vogunarsjóði þegar Japanar taka við forystu í samtökunum á næsta ári.

Gerald Corrigan, fyrrverandi forseti Seðlabanka Bandaríkjanna og höfundur að skýrslu árið 2005 um leiðir til að auka stöðugleika á fjármálamörkuðum, mun fá það verkefni að stuðla að auknum beinum samskiptum á milli fjármálaráðherra og framkvæmdastjóra vogunarsjóða.

Í sameiginlegri yfirlýsingu sem fjármálaráðherrar iðnríkjanna sendu frá sér kom fram að ásamt þeim tækninýjungum sem hafi átt sér stað á sviði fjármála, þá hafi vogunarsjóðir "stuðlað svo um munar að aukinnni hagkvæmni í fjármálakerfinu." Hins vegar er einnig bent á í yfirlýsingu fjármálaráðherrana að "mat á hugsanlegum kerfislegum hættum sem tengjast þessari starfsemi hafi orðið flóknari en áður. Í ljósi þess mikla vaxtar sem hefur orðið í starfsemi vogunarsjóða, þurfum við að sýna meiri aðgætni."

Rodrigo Rato, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, (IMF) tók undir þessar áhyggjur G-8 ríkjanna og sagði að sú þróun sem átt heði sér stað undanfarin ár á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hefði hjálpað til við að dreifa áhættunni, en á sama tíma væru kannski "sprottin upp ný vandamál sem við þurfum að huga betur að."