Á 100. fundi menntaráðs Reykjavíkurborgar, sem haldinn í dag, er á dagskrá tillaga fulltrúa meirihlutans í borgarstjórn um samþykkt stofnunar tæknigrunnskóla.

Þetta kemur fram í tilkynningu menntasviði borgarinnar en það er Nýja skólakerfið ehf. sem stendur að stofnun og rekstri skólans sem starfa mun í samræmi við grunnskólalög.

Í tilkynningunni kemur fram að um er að ræða sjálfstætt starfandi grunnskóla fyrir nemendur á unglingastigi.

„Markmiðið með stofnun skólans er í fyrsta lagi að efla hjá nemendum verklega og tæknilega hugsun ásamt frumkvöðlahugsun sem undirbýr þá fyrir skapandi starfsferil,“ segir í tilkynningunni.

Þá er stefnt að því að veita nemendum trausta undirstöðumenntun sem verði grunnur að námi á næsta skólastigi á eftir. Í hinum nýja tæknigrunnskóla verður leitast viða að leggja áherslu á iðn- og tæknigreinar í formi starfssviða sem verða 10 talsins.

Sótt verður um undanþágu frá ákvæðum aðalnámskrár grunnskóla um viðmiðunarstundir sem ætlaðar eru hverri námsgrein með tilvísun í 44. gr. grunnskólalaga sem fjallar um þróunarskóla. Í tilkynningunni kemur fram að það er gert í þeim tilgangi að auka svigrúm skólans.

„Hagnýtur hluti námsins fer fram í framhaldsskólum sem bjóða verk- og tæknigreinar og í fyrirtækjum á viðkomandi starfssviðum. Fræðilegur hluti námsins verður síðan byggður að nokkru marki á þeim hagnýta,“ segir í tilkynningunni.

Í skólanum verða um það bil 40 nemendur í árgangi. Fyrsta árið er byrjað með nemendur í 8. bekk og síðan bætt við einum árgangi árlega upp í 10. bekk. Hámark nemendafjölda er því um 120. Kennarar eru einn á hvern tuttugu manna hóp, eða tveir í upphafi og sex þegar fullmannað er, auk skólastjóra.