Þingsályktunartillaga um að fela ríkisstjórninni að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu hefur verið birt á vef Alþingis.

Í tillögunni kemur fram að ekki skuli sótt um aðild að Evrópusambandinu á nýjan leik án þess að fyrst fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort íslenska þjóðin stefni að aðild að Evrópusambandinu.

Í greinargerð með tillögunni segir að miðað við það sem fram hafi komið í atkvæðaskýringum, yfirlýsingum þingmanna og fleiri gögnum megi leiða að því rök að ekki hafi í raun verið til staðar meirihlutavilji fyrir málinu þegar ákveðið hafi verið að sækja um aðild heldur hafi það verið hluti af pólitísku samkomulagi þáverandi stjórnarflokka við myndun ríkisstjórnar.

"Þá hefur lengi legið fyrir að meiri hluti íslensku þjóðarinnar er á móti því að Ísland gangist undir skilmála Evrópusambandsins og gerist þannig meðlimur þess þótt vilji sé fyrir að kanna möguleika á aðild," segir í tillögunni.