Vinna við tillögu um að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið (ESB) er á lokametrunum í utanríkisráðuneytinu og verður lögð fyrir ríkisstjórn á allra næstu fundum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu .

Ríkisstjórnarfundur mun falla niður í dag vegna kjördæmaviku og að líkindum einnig á föstudag, svo líklega verður hún ekki lögð fyrir ríkisstjórnina fyrr en í næstu viku hið fyrsta.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir í samtali við Fréttablaðið að með tillögunni séu forystumenn Sjálfstæðisflokksins að svíkja beinar yfirlýsingar um að þjóðaratvæðagreiðsla yrði haldin um framhaldið. Þær hafi verið margítrekaðar fyrir og eftir kosningar auk þess sem Sigmundur Davíð hafi tekið undir þær að minnsta kosti í tvígang.

„Ef menn ætla að svíkja beinar yfirlýsingar um þetta verður því mætt með eldi og brennisteini,“ segir Össur.