Stjórn Icelandic Group leggur fyrir hluthafafund eftirfarandi tillögu um heimild til að taka víkjandi lán með sérstökum skilyrðum er veitir lánardrottni rétt til þess að breyta kröfu sinni á hendur félaginu í hluti í því, segir í tilkynnningu.

Lánið verði víkjandi og víki fyrir öllum öðrum kröfum á hendur lántaka nema kröfu um endurgreiðslu hlutafjár.

Lánið verði samkvæmt sérstökum lánasamningum sem fylgja tillögunni og verði viðbót við samþykktir félagsins ef tillagan verður samþykkt.

Þá felst í tillögunni heimild til hlutafjárhækkunar um allt að krónur 1.100.000.000 og verði stjórn félagsins heimilað samkvæmt 47. grein hlutafélagalaga að breyta 2. grein samþykkta félagsins til samræmis við þá hlutafjárhækkun sem leiða kann af breytingu lánsins í hluti í félaginu. Tillaga stjórnarinnar er svohljóðandi:

?Hluthafafundur, haldinn 16. janúar 2007, samþykkir, með vísan til VI. kafla hlutafélagalaga, einkum 47. grein, að taka lán er veitir lánardrottni rétt til þess að breyta kröfu sinni á hendur félaginu í hluti í því. Skal félaginu heimilt að gefa út skuldaskjöl að fjárhæð allt að krónur 5.000.000.000 eða samsvarandi fjárhæð í evrum og skal lánstíminn vera 5 ár. Skuldin ber ársvexti sem skulu vera LIBOR + 5%. Vextir skulu greiðast árlega, í fyrsta sinn hinn 31. desember 2007. Á gjalddaga vaxta greiðist helmingur þeirra en hinn helmingurinn leggst við höfuðstól og kemur til uppgjörs á greiðsludegi sem skal vera 31. desember 2011. Skal við útreikning vaxta leggja til grundvallar höfuðstól að viðbættum vöxtum sem leggja ber við höfuðstól skv. framansögðu. Félaginu er þó ekki heimilt að greiða vextina fyrr en hlutfallið vaxtaberandi skuldir/EBITDA er undir fimm samkvæmt útreikningi endurskoðanda félagsins.

Lán þetta er víkjandi og víkur fyrir öllum öðrum kröfum á hendur lántaka nema kröfu um endurgreiðslu hlutafjár. Við gjaldþrot eða slit lántaka endurgreiðist lánið á eftir öllum almennum kröfum en á undan kröfum til endurgreiðslu hlutafjár.

Á tímabilinu frá 1. desember 2011 til 31. desember 2011 er lánveitanda heimilt að breyta höfuðstól skuldarinnar að viðbættum vöxtum í hluti í Icelandic Group hf. Á sama hátt getur lánveitandi, á vaxtagjalddögum (í fyrsta sinn hinn 31. desember 2007), breytt öllu láninu eða hluta þess, þó að lágmarki 20% af höfuðstól skuldarinnar ásamt áföllnum vöxtum í hlutafé. Skal gengið við slíka breytingu vera vegið meðalsölugengi hlutabréfa í Icelandic Group hf. eins og það er skráð hjá Kauphöll Íslands hf. dagana 11. til 15. janúar 2007 samkvæmt útreikningi endurskoðanda félagsins.

Kjósi lánveitandi að breyta skuld sinni í hluti í Icelandic Group hf. skal hann tilkynna félaginu það skriflega. Skal stjórn félagsins, eins fljótt og kostur er, gefa út hlutabréf í Icelandic Group hf. til lánveitanda honum að kostnaðarlausu til þess að fullnægja breytiréttinum.

Sé skuldinni breytt í hluti í Icelandic Group hf. telst fullnaðaruppgjör hafa farið fram þegar lántaki hefur gefið út nýja hluti í Icelandic Group hf. á nafn lántakanda. Hlutabréf eru gefin út með rafrænum hætti í samræmi við 2.03 grein samþykkta félagsins og telst félagið hafa fullnægt skyldum sínum þegar hlutabréfin hafa verið færð í tölvukerfi Verðbréfaskráningar Íslands á kennitölu lánveitanda.

Ef hlutafé lántaka verður hækkað á lánstímanum hefur lánveitandi ekki rétt til forgangs að nýjum hlutum. Verði lántaka slitið á lánstímanum, þ.m.t. við samruna eða skiptingu, áður en láninu hefur verið breytt í hlutafé eða það greitt, skal þess gætt að staða skuldbindingar samkvæmt láninu verði með þeim hætti að skuldbindingin sé víkjandi fyrir öðrum skuldum lántaka (en jafnsett öðrum víkjandi lánum sem tekin verða samkvæmt þessari heimild) en framar stöðu hlutafjár í félaginu.

Að öðru leyti en að framan greinir skal ákvörðun um lækkun hlutafjár í félaginu, útgáfa breytanlegra skuldabréfa, lána eða áskriftarréttindi ekki hafa áhrif á réttarstöðu lánveitanda áður en kröfu hans verður breytt í hlutafé.

Um breytingu lánsins í hluti gilda ákvæði 4. málsgrein 47. grein hlutafélagalaga.

Skal stjórn félagsins heimilt að hækka hlutafé félagsins um allt að kr. 1.100.000.000 að nafnverði til að efna ofangreinda skuldbindingu. Falla hluthafar frá forgangsrétti til áskriftar að hlutum sem gefnir verða út skv. þessari heimild. Hinir nýju hlutir skulu veita réttindi í félaginu frá skráningardegi hlutafjárhækkunar.

Verði tillagan samþykkt verður hún tekin upp í samþykktir félagsins sem ný grein nr. 12.1. og sýnishorn lánaskjala sem fylgja tillögu þessari og teljast hluti hennar grein 12.2.?