Í dag lauk tveggja daga fundi G20 á suðurströnd Suður-Afríku. Fram kom í máli Trevor Manuel, fjármálaráðherra Suður-Afríku að G20 vilji að þau sjö stærstu iðnríki heims sem hingað til hafa myndað svokallaðan G7 hóp stækki við sig og kalli fleiri á fundi sína.

Fjármálaráðherrar og seðlabankastjórar þeirra tuttugu ríkja sem mynda G20 hópinn krefjast þess að Bretton Woods stofnanirnar verði teknar til endurskoðunar. Þeir vilja að stjórnir stofnananna innihaldi fullrúa allra aðila. Einnig var mikil umræða um gjaldeyrismál og var mikið fjallað um samskipti vesturvelda við Kína.

„Heimurinn er að breytast og fleiri efnahagskerfi spila stærra hlutverk en áður. Það er því eðlilegt að breytingar verði á fulltrúum iðnríkja,“ sagði Henrique Meirelles, seðlabankastjóri Brasilíu.

Fyrr á árinu hittist G7 hópurinn í Washington. Þá þrýstu Bandaríkin og Evrópuþjóðir á Kínverja til að hækka gengi sitt. Hækkun gengis á kínversku júani myndi minnka viðskiptahalla Bandaríkjanna. Þessu mótmæltu G20 ríkin í sameiginlegri yfirlýsingu í dag og vilja að auka sveigjanleika i gengismálum.

Bandaríkin og Evrópuríkin halda því fram að Kínverjar séu stærsta vandamál þeirra þegar kemur að útflutningi. Viðskiptahalli Bandaríkjamanna við Kína var 23 milljarðar bandaríkjadala aðeins í október s.l. Eurostat segir að viðskiptahalli gagnvart Kína hafi aukist um 25% á þessu ári. Það er því mikið hagsmunamál fyrir fyrrnefndar þjóðir að Kínverjar hækki gengi sitt, en reikna má með því að Kínverjar standi fastir á sínu.

Mikil umræða var einnig á fundinum um veikt gengi bandaríkjadals, en hann hefur sjaldan verið lægri en nú. Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, segist fullviss um að dollarinn muni hækka á næstu misserum. „Efnahagskerfi okkar fer í gegnum hæðir og lægðir eins og öll önnur. Égefast þó ekki um að við munum ná okkur á strik og það mun sýna sig í genginu,“ sagði Paulson í viðtali fyrr í dag.

Þetta kemur fram í Herald Tribune International.