Þær tillögur sem lagðar voru fyrir hluthafafund FL Group á föstudaginn 7. júlí 2006 voru samþykktar, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Hluthafafundur í FL Group samþykkir kaup á hlutafé í Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. samtals 24,2% af heildarhlutafé þess félags samkvæmt fyrirliggjandi samningum sem dagsettir eru 27. júní 2006.

Til að fjármagna kaupin samþykkir fundurinn að hækka hlutafé um allt að kr. 1.803.956.507 (eða úr kr. 6.141.029.413 í allt að kr. 7.944.985.920), með útgáfu nýrra hluta sem eingöngu verða nýttir til kaupa á ofangreindum hlutum og afhentir seljendum þeirra í skiptum fyrir hlutabréf í Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. þann 20. júlí næst komandi samkvæmt áðurnefndum samningum. Sölugengi hinna nýju hluta er 18,52.

Stjórn félagsins er falið að tilkynna endanlega hækkun á hlutafé félagsins til Hlutafélagaskrár í samræmi við ákvæði laga um hlutafélög nr. 2/1995 og hefur heimild til að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum félagsins því tengdu. Áætlaður kostnaður við hlutafjárhækkununa og skráningu hinna nýju hluta er þrjátíumilljónir króna.

Stjórn

Skarphéðinn Berg Steinarsson var kjörinn formaður stjórnar og Þorsteinn M. Jónsson varaformaður.

Eftirtaldir voru kjörnir í stjórn félagsins til næsta aðalfundar:

Aðalmenn:
Skarphéðinn Berg Steinarsson, formaður.
Þorsteinn M. Jónsson, varaformaður.
Jón Ásgeir Jóhannesson.
Magnús Ármann.
Smári S. Sigurðsson.
Kristinn Björnsson.
Paul Davidson.

Varamenn:
Peter Mollerup.
Magnús Kristinsson.