Engar tímasetningar hafa verið ákveðnar varðandi tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar. Ráðherranefnd um ríkisfjármál hefur fengið tillögur hópsins til meðferðar og voru þær ræddar á ríkisstjórnarfundi í gær.

Greint er frá þessu í Morgunblaðinu í dag en á föstudag var greint frá því í blaðinu að tillögur hópsins feli meðal annars í sér að draga úr eftirliti á vegum hins opinbera og að skera niður fjárveitingar til Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar. Í Morgunblaðinu í dag segir að umfjöllun blaðsins á föstudag hafi valdið titringi í stjórnkerfinu. Það hafi ekki orðið til þess að flýta afgreiðslu málsins innan ríkisstjórnarinnar.

Ásmundur Einar Daðason þingmaður fer fyrir hagræðingarhópnum. Í honum sitja einnig þingmennirnir Guðlaugur Þór Þórðason, Vigdís Hauksdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir.