Borgarráð samþykkti í gær átta tillögur meirihluta borgarráðs um aðgerðir í húsnæðismálum á aukafundi sem minnihluti borgarráðs óskaði eftir. Þá var samþykkt tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að kanna væntingar og þarfir einstaklinga í húsnæðisvanda. Tillögum minnihlutans var flestum vísað til frekari skoðunar hjá Velferðarráði og fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar.

Tillögurnar eru hluti af aðgerðum meirihlutans í húsnæðismálum og lutu þær flestar að húsnæði til þeirra sem teljast utangarðs Meðal þess sem var samþykkt var að útvega fimm lóðir fyrir allt að 25 smáhýsi á árinu 2018, bæta þjónustu í samstarfi við ríkið um heilbrigðisþjónustu  utangarðsfólks og að velferðarsvið ljúki tillögugerð um áframhaldandi uppbyggingu húsnæðis fyrir fólk sem telst utangarðs.

Þá voru samþykktar tillögur um viðræður við ríkisvaldið og verkalýðshreyfinguna um breytingar á reglum um stofnframlög, áskorun til ráðherra húsnæðismála um að sveitarfélögum verði gert skylt að fjölga félagslegum íbúðum að ákveðnu hlutfalli við íbúafjölda og að teknar verði upp viðræður við önnur sveitarfélög um þátttöku í kostnaði við úrræði sem íbúar viðkomandi sveitarfélaga nýta sér en borgin ber hitann og þungan af.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, segir að aldrei hafi fleiri íbúðir verið í byggingu í sögu Reykjavíkur og í ár. ,,Hvergi á Íslandi eru framlög til húsnæðismála hærri en í Reykjavík. Alls eru framlög til málaflokksins á árunum 2018-2022 áætluð 70 milljarðar, þar af 14,2 milljarðar í ár. Þá er félagslegum íbúðum að fjölga ört enda kaupa Félagsbústaðir íbúðir í nær öllum uppbyggingarverkefnum sem nú eru í gangi í Reykjavík í þeim tilgangi að stytta biðlista. Ef öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ættu sama hlutfall félagslegra íbúða og Reykjavík þá væru engir biðlistar eftir félagslegu húsnæði,” segir Þórdís Lóa.