Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir húsnæðismálin vera munaðarlausan málaflokk þar sem hann sé ekki á ábyrgð einhvers eins ráðherra og dreifist á þrjú ráðuneyti.

Hann segir að SI leggi til að málaflokkurinn í heild sinni verði færður í eitt ráðuneyti að danskri fyrirmynd. Þá segir hann að ólgan á vinnumarkaði sé ekki síst til komin vegna stöðunnar á húsnæðismarkaði.

Sigurður segir að tillögur félags- og jafnréttismálaráðherra, um að ríkið styrki sveitarfélög til að stuðla að frekari húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni, séu dropi í hafið en ráðherra kynnti fyrr í vikunni tillögur sínar um að styrkja húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni sem snýr að því að ríkið jafni mismun á fasteignaverði og byggingarkostnaði með beinu fjármagni þar sem fasteignaverð er lægra en byggingarkostnaður.

„Það sem þetta kannski sýnir fyrst og fremst er sá munur sem er á milli sveitarfélaga. Ef framboð af lóðum er gott og ef gjöld sem sveitarfélagið tekur eru lág þá er auðvitað hægt að byggja á hagkvæman hátt og selja íbúðir á hagstæðu verði,“ segir Sigurður.