Sjálfstæð verkefnisstjórn skipuð af Samráðsvettvangi um aukna hagsæld (SRV) skilaði af sér úttekt á íslenska skattkerfinu nú á dögunum. Stjórnin hóf störf í febrúar á þessu ári og var tilgangur hennar að móta tillögur til umbóta á skattkerfinu. Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, gegndi formennsku í stjórn sem skipuð var sex sérfræðingum í skattamálum.

Forsendur verkefnisins voru þrennar. Í fyrsta lagi var eyða til staðar í fyrri tillögum verkefnisstjórnarinnar, auk þess sem tillögunar um opinbera þjónustu miðuðu einungis við rekstur en ekki fjármögnun. Í öðru lagi renna 4 af hverjum 10 krónum til hins opinbera í formi skatta, og hagkvæmni skattinnheimtu hefur mikil áhrif á lífskjör. Loks hafa alþjóðlegar stofnanir á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) og Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) gert umfangsmiklar úttektir á íslenska skattkerfinu, en tillögur verkefnisstjórnar eiga sér fræðilega tilvísun í þær skýrslur.

Tillögur stjórnarinnar eru 27 talsins og skiptast í þrjá flokka, er varða hið almenna skatta, umhverfis- og auðlindagjöld, og skattskil or eftirlit.

Afnám samsköttunnar, lægra neðra þrep og skattlagning raunvaxta

Fyrstu fjórar tillögur stjórnarinnar snúa að tekjuskatti einstaklinga, sem skilaði 128 milljörðum króna í ríkiskassann árið 2015. Fyrsta tillagan er afnám samsköttunnar, en í dag eru hjón sjálfkrafa samsköttuð. Næst leggur stjórnin til hækkun barnabóta, afnám vaxtabóta og að á þeim grundvelli - auk afnáms samsköttunnar - verði persónuafsláttur útborganlegur. Er það hugsað sem bein styrkveiting til þeirra sem mest þurfa á fjárhagsaðstoð að halda. Þessar þrjár tillögur skapa síðan forsendu fyrir lækkun skatta í tvö þrep: 25% og 43%. Efra skattþrep miðar við 7,8 milljónir króna af brúttólaunum einstaklinga á ári, og falla þar inn 10% skattgreiðenda. Meginþorri skattgreiðenda myndi því búa við lægri skattprósentu ef tillagan yrði að veruleika.

Næstu tvær tillögur varða skatt á neyslu og sparnað. Lagt er til að virðisaukaskatturinn – sem skilaði 179 milljörðum til ríkissjóðs árið 2015 – verði einfaldaður með fækkun undanþága og sameiningu skattþrepa í eitt þrep við 19%. Síðan er lagt til að raunvextir – vextir að teknu tilliti til verðlagsþróunar á ávöxtunartímabili – verði skattlagðir í stað nafnvaxta, því fjármagnstekjuskattur án tillits til verðbólgu leggst með þungum hætti á sparnað. Má þar nefna að á meðan skattur á nafnávöxtun er lægstur á Íslandi í norrænum samanburði er skattur á raunávöxtun hæstur á Íslandi.

Síðustu fjórar tillögur stjórnarinnar um umbætur á almennum sköttum snerta rekstur. Er þar lagt til að tryggingagjald hækki í öfugu hlutfalli við stöðu tryggingasjóðs með þaki og gólfi til að girða fyrir áhrifum hagsveiflunnar, því tryggingasjóður stendur í öfugu hlutfalli við sveiflur í atvinnuleysi. Síðan er lagt til að þunn eiginfjármögnun verði takmörkuð með takmörkun á frádrætti vaxtagjalda. Níunda tillaga leggur til hina svokölluðu ‘dönsku leið’ í eftirgjöf og umbreytingu skulda rekstraraðila með þeim hætti að hún leiði ekki til skattgreiðslu. Loks er lagt til að skattlagning samlagshlutafélaga sé samræmd öðrum félagaformum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .