Vegagerðinni hefur verið falið að leiða vinnu nýs starfshóps fulltrúa borgarinnar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, og Faxaflóahafna um að endurmeta og skoða tvo fýsilega kosti um legu Sundabrautar. Byggt verður á starfi starfshóps sem Viðskiptablaðið sagði frá síðasta sumar sem skilaði tillögum um mögulega legu brautarinnar og sagði jarðgöng fýsilegasta kostinn.

Það eru jarðgöng yfir í Gufunes og lágbrú sem þverar hafnarsvæðið við Kleppsvík, en þessir tveir kostir voru taldir fýsilegastir í skýrslu starfshóps ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Sá fyrri hefði ekki áhrif á starfsemi Sundahafnar, en ef mögulegt er að færa höfnina yrði lágbrú ódýrasti og hentugasti kosturinn.

Á starfshópurinn, sem Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur látið skipa, að skila niðurstöðum fyrir lok ágústmánaðar, sem undirbúa eigi ákvörðun um hvaða leið verði farin við uppbyggingu Sundarbrautar.

Um miðjan mars lagði ráðherrann fram frumvarp um svokallaðar samvinnuvegalagningar einkaaðila og hins opinbera, sem gætu skapað allt að 4 þúsund ársverk í uppbyggingu innviða.

Verkefni hópsins verða einkum tvíþætt segir á vef Stjórnarráðsins :

  • Endurmeta hönnun og legu Sundabrautar og gera nýtt kostnaðarmat fyrir báða valkosti. Leggja skal fram ný frumdrög fyrir báðar framkvæmdir og taka mið af uppbyggingaráformum í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.
  • Greina valkosti fyrir breytt skipulag Sundahafnar ef lágbrú yrði fyrir valinu. Vinna þarf mat á áhrifum á umferð, umhverfisþætti, nærumhverfi, atvinnustarfsemi og þróunarmöguleika Sundahafnar.

Tillögurnar á að vinna í samráði við helstu hagsmunaaðila og fyrirtæki á svæðinu, en hugmyndir um svokallaða Sundabraut frá Sæbraut í Reykjavík að Vesturlandsvegi í Kollafirði hafa lengi verið í deiglunni. Jafnframt hafa verið nefndar hugmyndir um bæði Suðurstrandaveg og Ofanbyggðarveg til að klára hringveg í kringum borgina.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um nefndi til að mynda Ásgeir Jónsson núverandi Seðlabankastjóri það fyrir rúmum tveimur árum að það hefðu verið mistök eftir síðasta hrun að fara ekki á fullt í innviðaframkvæmdir, til að mynda Sundabraut.

Á móti kom gagnrýni frá Hjálmari Sveinssyni formanni umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar um að Sundabraut myndi ýta umferðarvandanum á undan sér inn á Sæbrautina og kallaði frekar eftir stokk í gegnum Miklabraut , en hugmyndir um slíkan stokk hafa verið settar af borgarstjórnarmeirihlutanum til að ná fram frekari þéttingu byggðar.

Hringflæðið óhindrað ef færi í gegnum stokk undir Hafnartorg

Ekkert var rætt um hvert umferðin ætti að fara á meðan þeim framkvæmdum stæði , en áður hafði borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík hafnað hugmyndum um stokk undir Hafnartorg og Austurhafnarsvæðið , sem hefði tengt saman austur og vesturhluta borgarinnar útjaðri byggðarinnar.

Þannig má vænta að þær umferðartafir sem reglulega myndast sínum hvorum megin við miðborgina hefðu heyrt sögunni til, því hægt væri að láta umferðina flæða óhindrað í gegnum stokkinn í útjaðri borgarinnar. Forstjóri ÍAV talaði þá fyrr um sumarið um að umferðartafir í borginni hafi aukist um 40% síðan síðasta uppbyggingarskeiði í samgöngumannvirkjum í borginni hafi lokið.

Árið áður var fjallað um að stór fjárfestingarverkefni sem væru í burðarliðnum hjá hinu opinbera gætu numið yfir 300 milljörðum króna , en fyrr á árinu voru viðræður um Sundabraut samþykktar í borgarstjórn.

Þá gagnrýndu Sjálfstæðismenn sem verið hafa í minnihluta að undirbúningur Sundabrautar hafi legið í dvala of lengi, og skipulag á Gufunesi hafi útiloka einn af bestu valkostunum um legu brautarinnar , það er svokallaða eyjaleið við Gufunesið.

Hér má sjá frekari fréttir um Sundabraut og innviðauppbyggingu: