SFF sendi frá sér tillögur til fjármálafyrirtækja í vikunni þar sem þau eru hvött til þess að innheimta gengistryggð íbúðalán í samræmi höfuðstólinn eins og hann var í upphafi þegar lánið var tekið. Miðað við þessar tillögur innheimta bankarnir um 5.000 krónur á mánuði fyrir hverja milljón sem lánið er upp á. Fyrir tíu milljónir greiðir því lántaki um 50 þúsund krónur.

Miðað við útreikninga sem unnir hafa verið fyrir SFF, og raunar fleiri fjármálafyrirtæki, er greiðslubyrði lántakenda nokkuð minni en nýleg tilmæli Seðlabanka Íslands (SÍ) og Fjármálaeftirlitið (FME) til fjármálafyrirtækja, vegna dóms Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar, gefa til kynna. Tilmælin gerðu ráð fyrir að miðað yrði við lægstu óverðtryggðu vexti á hverjum tíma.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Jakob R. Möller hrl. unnið lögfræðiálit um hvernig vextir á gengistryggðum lánum skuli endurmetnir. Í því kemst hann að sambærilegri niðurstöðu og tilmæli Seðlabankans og FME gefa til kynna, þ.e. að miða skuli við lægstu óverðtryggðu vexti á hverjum tíma. Hvorki Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri SFF,  né Jakob R. Möller vildu tjá sig um fyrrnefnt lögfræðiálit þegar Viðskiptablaðið leitaði til þeirra. Greiðslubyrðin, miðað við lægstu óverðtryggðu vexti á hverjum tíma, nemur milli 5.500 til 6.000 krónum á hverja milljón í flestum tilvikum. Þó getur það verið misjafnt eftir því hvernig lánin verða endurreiknuð. Það þýðir kostnað upp á um 55 til 60 þúsund krónur mánaðarlega miðað við tíu milljóna króna höfuðstól.

-Nánar í Viðskiptablaðinu