Tilmælum FME og Seðlabankans er ætlað að skapa festu í viðskiptum á fjármálamarkaði og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi. Þetta sagði Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, í morgun þegar stofnanirnar tvær beindu tilmælum til fjármálafyrirtækja þess efnis að gera á upp gengistryggð lán á lægstu vöxtum sem nú eru á lánamarkaði.

„Stöðugleiki fjármálakerfisins eru mikilvægir almannahagsumir sem Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum ber lögum samkvæmt að standa vörð um. Með tilmælunum eru þessar eftirlitsstofnanir að sinna lagaskyldu sem á þeim hvílir,“ sagði Arnór í morgun.

Afstaða FME og SÍ er að hvorki er lagaleg skylda né efnahagsleg rök fyrir því að vaxtakjör sem áður voru gengistryggð haldist þannig áfram eftir dóm Hæstaréttar. Stofnanirnar telja að slík túlkun myndi hafa í för með sér stórt högg á eigið fé fjármálafyrirtækja og ríkissjóður þyrfti þá að hlaupa undir bagga. Slíkur kostnaður myndi falla á alla samfélagsþegna.

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, hefur áður sagt að ef túlkun á dómi Hæstaréttar yrði framkvæmd til hins ýtrasta í hag skuldara þá yrði það mikið högg fyrir fjármálastofnanir.