Samfylkingin mun ekki tilnefna nýjan fulltrúa í stjórn Íbúðalánasjóðs enda ófært að setja nýjan stjórnarmann í þá stöðu. Þetta kemur fram í bréfi sem Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sendi Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, í gær.

Í bréfinu vísar Árni Páll til afsagnar Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur úr stjórn sjóðsins 19. september síðastliðinn þar sem hún sagði stjórnina á engan hátt vera stefnumarkandi í stórum málum sem snerti framtíð Íbúðalánasjóðs. Ákvarðanir um starfsemi sjóðsins hafi verið teknar án aðkomu stjórnar.

Árni Páll óskar eftir upplýsingum frá ráðherra hvernig brugðist verði við þeim athugasemdum sem fram komu í afsagnarbréfinu og telur þær upplýsingar forsendu tilnefningar nýs fulltrúa af hálfu Samfylkingarinnar. Hann segir að af bréfinu megi ráða að ábyrgð og stjórnunarvald fari ekki saman í stjórn sjóðsins með þeim hætti sem lög kalla á.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .