Tilnefningarnefnd Skeljungs leggur til að Sigurður Kristinn Egilsson, stofnanda Arcur Finance taki nýr sæti í stjórn Skeljungs umfram Nönnu Björk Ásgrímsdóttur, fjárfesti og stóran hluthafa í Streng, meirihlutaeigenda Skeljungs. Stjórnarkjörið fer fram á aðalfundi félagsins þann 4. mars en skýrsla nefndarinnar var birt í gærkvöldi.

Elín ein að hætta

Sigurður Kristinn og Nanna gáfu tvö ný kost á sér í stjórnina en Elín Jónsdóttir, forseti lagadeildar Bifrastar, gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Að öðru leyti leggur tilnefningarnefndin til að stjórn Skeljungs verði óbreytt, en hana skipa nú auk Elínar, Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður, Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs hjá Icelandair Group og varaformaður stjórnar, Dagný Halldórsdóttir verkfræðingur og Þórarinn Arnar Sævarsson, einn af eigendum RE/MAX á Íslandi og stór hluthafi í Streng.

Yrði fulltrúi þriðja félagsins innan Strengs

Fjárfestingafélagið Strengur eignaðist ríflega 50,06% hlut í Skeljungi í byrjun ársins í kjölfar þess að hafa gert yfirtökutilboð á félagið. Strengur er í eigu þriggja fjárfestahópa. Félag sem er í meirihlutaeigu 365 á 38% í félaginu, en 365 er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs. Þá á félag í eigu Þórarins og Gunnars Sverris Harðarsonar 24% hlut í Streng. Þriðja félagið er svo RES 9 sem á einnig 38% hlut. Það er í að meirihluta í eigu Nönnu Bjarkar og eiginmanns hennar, Sigurðar Bollasonar en breskrar fjárfestar eru minnihlutaeigendur. RES 9, er því eina félagið innan Strengshópsins þar sem hluthafi situr ekki í stjórn Skeljungs.

Strengshópurinn hefur boðað miklar breytingar á rekstri Skeljungs. Félagið standi á tímamótum vegna fyrirsjáanlegrar minni eldsneytissölu í kjölfar orkuskipta. Þá vill Strengur að Skeljungur selji eignir, meðal annars til að greiða út hluthöfum sem nýta á í að greiða niður lán sem tekin voru til að fjármagna kaupin á Skeljungi. Strengur hefur einnig lýst vilja til að afskrá Skeljung úr Kauphöll Íslands. Því hefur þess verið vænst að hópurinn vilji fá þriðja fulltrúa sinn í stjórn félagsins og ná þannig meirihluta í stjórninni og í kjölfarið framkvæma boðaðar breytingar á rekstri félagsins.

Styrki bæði stjórnina

Í skýrslu tilnefningarnefndar kemur fram að sú reynsla og þekking sem Nanna Björk býr yfir sé að finna í núverandi stjórn í meira mæli en reynsla og þekking Sigurðar Kristins. „Þrátt fyrir að þau myndu bæði styrkja stjórnina telur nefndin, að virtu heildarmati á öllum frambjóðendum, að það yrði meiri virðisauki fyrir félagið að fá Sigurð Kristinn í stjórn til viðbótar við þá fjóra stjórnarmenn sem gefa áfram kost á sér,“ segir í skýrslu nefndarinnar.

Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að Nanna Björk hafi verið í eigin fjárfestingum frá 2006 til dagsins í dag. Þar áður hafi Nanna Björk staðið að rekstri fjölmargra verslana, meðal annars All Saint, Whistles, Karen Millen, Shoe Studio og Warehouse og þar áður við almenn lögfræðistörf hjá Kaupþingi árin 2001-2003 og á Lex lögmannsstofu árin 1999-2000. Nanna Björk lauk LLM Mastersgráðu í Evrópurétti frá Háskólanum í Stokkhólmi 2001 og embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 2000.

Sigurður Kristinn er menntaður verkfræðingur og stofnaði Arcur Finance árið 2017, sem sérhæfir sig m.a. í fjármögnun fyrirtækja ásamt ýmsum sérhæfðum verkefnum. Sigurður Kristinn er janframt stjórnarformaður í NeckCare Holding. Sigurður Kristinn starfaði í ríflega áratug á eignastýringasviði Kaupþings, lengi vel í stjórnunastöðum en á árunum en 2010-2016 veitti hann forstöðu eignastýringar og sérhæfðra sjóða hjá ALM Verðbréfum. Þá hefur hann setið í stjórn Meniga fyrir hönd fjárfesta.

Í skýrslunni segir að þó Nanna Björk sé menntaður lögfræðingur, sem nýtist vel í stjórn skráðs félags, hafi hún starfað sem slík um fremur skamma hríð. Þá búi Sigurður Kristinn yfir góðri þekkingu og reynslu á fasteigna- og fjárfestinga- nýsköpunarumhverfinu sem og hafi öðlast þekkingu á sviði framtíðarorkugjafa. Auk þess hafi Sigurður Kristinn setið í stjórnum fyrirtækja, lokið hæfismati FME og hafi góða þekkingu á reglum er gilda um skráð félög.