Íslenska auglýsingastofan hefur hlotið tvær Effie verðlauna tilnefningar fyrir „Ask Guðmundur“ herferðina, sem er hluti af Inspired by Iceland herferð Íslandsstofu að því er segir í fréttatilkynningu.

Fyrsta íslenska auglýsingastofan til að vera tilnefnd

Íslenska auglýsingastofan er fyrst íslenskra auglýsingastofa til að hljóta tilnefningu til þessara mikilvægu árángursverðlauna í keppninni í Norður Ameríku, en keppnin er haldin í stærstu heimsálfunum ár hvert.

Íslenska auglýsingastofan er tilnefnd í tveimur flokkum - annars vegar fyrir Travel & Tourism, þar sem hún etur kappi við Airbnb, og hins vegar David vs Goliath, en það er fyrir markaðssetningu í umhverfi þar sem samkeppni við stærri fyrirtæki og vörumerki er mikil.

Ein mest verðlaunaða ferðaþjónustuherferð heims

Herferðin er orðin ein sú mest verðlaunaða ferðaþjónustuherferð heims og vann til að mynda nýverið fern gullverðlaun á evrópsku Effie hátíðinni, Grand Prix verðlaunin og Lúðurinn fyrir Herferð ársins og Stafrænar auglýsingar.

Inspired by Iceland hefur í heild unnið yfir 20 gull og Grand Prix verðlaun á síðustu fimm árum og eru þá ótalin ýmis önnur verðlaun sem hún hefur hlotið.

Herferð á samfélagsmiðlum

Ask Guðmundur, The Human Search Engine, er samfélagsmiðladrifin herferð sem gerir notendum kleift að spyrja ólíka Íslendinga, sem allir bera nafnið Guðmundur eða Guðmunda, um Ísland, hefðir, náttúru og menningu.

Sumum spurningum er svarað með sérstökum myndböndum sem dreift er á samfélagsmiðlum og má sjá þau á YouTube-rás Inspired by Iceland.

Herferðin sem Íslenska hefur unnið í góðu samstarfi við The Brooklyn Brothers í London og útfærsla hennar byggir á samstarfi opinberra aðila og íslenskrar ferðaþjónustu og er Íslandsstofa framkvæmdaraðili.

Um verðlaunin:

Effie verðlaunin, sem sett voru á fót árið 1968, er ein virtustu auglýsingaverðlaun heimsins og eru dómnefndir skipaðar fagfólki með umfangsmikla markaðs- og auglýsingareynslu.

Sérstaða Effie verðlaunanna felst ekki síst í því að þau verðlauna árangur herferða, ekki einungis útlit.