Íslenska auglýsingastofan Jónsson & Le´macks hefur verið tilnefnd til hinna virtu Epica verðlauna, en þau eru ein af helstu keppnum fyrir hönnun og skapandi vinnu í heiminum og hafa verið veitt frá árinu 1987.

Tilnefningin byggir á prentauglýsingum fyrir 66°Norður sem nefnd er On Location, en leiðarstef hugmyndarinnar á bak við auglýsingarnar er:

„Þegar þú þekkir ekki stílistan frá tökumanni eða módeli, þá veistu að þú ert á tökustað á 66°Norður,“ segir í fréttatilkynningu frá stofunni.

„Tilkynnt verður um verðlaunahafa 17. nóvember næstkomandi við hátíðlega athöfn í Amsterdam í Hollandi, innsendingarnar fyrir 66°Norður eru þær einu frá Íslandi sem hljóta viðurkenningu í Epica keppninni þetta árið.“

Keppendur frá 75 löndum með 585 innsendingar

Auglýsingastofan hefur unnið nánast óslitið frá stofnun árið 2003 fyrir útivistarmerkið og áður unnið til alþjóðlegra verðlauna fyrir auglýsingaefni fyrir merkið.

Fyrirtækið sendi inn þrjár prentauglýsingar úr herferðinni í keppnina í ár sem dómnefnd hefur nú tilnefnt til verðlauna, en á síðasta ári bárust sendingar í keppnina frá 585 auglýsinga- og hönnunarstofum í 75 löndum.