Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing hefur tímabundið hætt reynsluflugi 787 Dreamliner flugvélarinnar eftir að reykur kom upp í flugstjórnarklefa vélarinnar við tilraunarflug í gær.

Nauðlenda þurfti vélinni, sem er ein af sex tilraunarvélum Boeing, í Texas í Bandaríkjunum þar sem hún var á flugi með 42 manns innanborðs, allt starfsmenn Boeing. Vélin var rýmd með hraði strax eftir lendingu verið að rannsaka uppdrög reyksins.

Hlutabréf í Boeing hafa lækkað um rúm 3% það sem af er degi á mörkuðum vestanhafs en Dreamliner vélin er nú þegar þremur árum á eftir áætlun og óhætt að segja að allt sem veldur frekari töfum á afhendingu kann að valda félaginu miklum erfiðleikum.

Í tilkynningu frá Boeing kemur fram að hinum tilraunarvélunum fimm verði ekki flogið fyrr en búið er að rannsaka málið.

Þá er sérstaklega tekið fram að ekkert bendi til þess að um galla í hreyflum vélarinnar sér að ræða en þeir eru framleiddir af Rolls Royce. Ástæðan fyrir því að það er sérstaklega tekið fram er að Rolls Royce framleiðir einnig hreyfla fyrir Airbus en sem kunnugt er sprakk einn hreyfill á flugi í Airbus A380 vél í eigu Quantas flugfélagsins í síðustu viku.