Enn veiðist vel af þorski á miðunum við Jan Mayen. Norska línuskipið Geir landaði 300 tonnum af frystum afurðum eftir þrjátíu daga túr í nóvember, en hann var einn þriggja báta sem lögðu leið sína á miðin á vegum stjórnvalda.

Um skipulagðar tilraunaveiðar á vegum norskra stjórnvalda er að ræða, en tilefnið er þorskveiði norskra báta árið 2018. Heildarmagn tilraunaveiðanna þegar allt er tekið saman fyrir árið 2020 eru 522 tonn af þorski, en eitthvað lítið er af meðafla.

Bjarte Bogstad, sérfræðingur hjá norsku Hafrannsóknastofnuninni, segir í skriflegu svari til Fiskifrétta að myndin sé tekin að skýrast hvað varðar veiðarnar við Jan Mayen. Ljóst sé að þungamiðja hrygningar þorsks á svæðinu sé um miðjan apríl. Þetta hafi mátt sjá af því að einn bátanna sem stundað hafa veiðarnar hafi fengið þorsk í lok mars í fyrra sem var þá að mestu óhryngdur. Veiðar á þorski í lok apríl og snemma í maí sýndu hið gagnstæða en þá var hrygningu að ljúka.

„Hvað veiðarnar varðar þá gefur best síðla hausts en lítið er að hafa yfir sumartímann. Þessi slaka sumarveiði skýrist sennilega af því að þá er mikið æti á slóðinni. Það hefur sýnt sig að þá er fiskurinn úttroðinn og beituveiði á línu skilar þá minni árangri, enda fiskurinn þá áhugalausari um annað æti en það sem hann er í fyrir,“ segir Bjarte.

Bjarte segir jafnframt að fiskur úr veiðum ársins 2020 sé að langmestu leyti stór, og sá fiskur sem veiddist árið 2019 hafi að miklu leyti verið fiskur úr 2007 árgöngum.

„Hins vegar virðist vera meira af yngri fiski í afla ársins 2020 samanborið við árið á undan. Fjögurra ára fiski, aðallega. Það má því álykta að yngri fiskur er að bætast við þann fisk sem var þar fyrir.“

Frá Noregi og Íslandi

Hvað uppruna þorsksins varðar þá liggja niðurstöður ekki fyrir varðandi veiðina árið 2020. Samanburður á gögnum eins og kvörnum fiska er ólokið, segir Bjarte.

Hins vegar hafa Fiskifréttir greint frá því að þorskurinn sem veiddist árið 2019 reyndist vera að meirihluta til úr stofni Barentshafsþorsksins – en enn athyglisverðara er að um þriðjungur þorsksins sem var rannsakaður reyndist íslenskrar ættar.

Bjarte staðfesti í skriflegu svari til Fiskifrétta á þeim tíma að fyrstu niðurstöður erfðafræðirannsóknar stofnunarinnar hafi náð til 86 fiska og af þeim reyndust 29 íslenskir, 51 af stofni Barentshafsþorsks en sex til þess stofns sem á rætur að rekja til strandsvæða Noregs. Rannsóknir á kvörnum gáfu ekki viðbótarupplýsingar hvað íslenskan þorsk varðar þar sem norsku vísindamennirnir höfðu ekki kvarnir úr íslenskum þorski til samanburðar á þeim tíma.

Við þetta er að bæta að þorskurinn sem veiðist við Jan Mayen er minni en jafnaldrar hans veiddir í Barentshafi og við Ísland.