Tveir greindust með kórónuveirusmit innanlands í gær og einn á landamærunum. Smitin sem greindust innanlands voru bæði hjá fólki sem var ekki í sóttkví. Ekki er vitað hvort smitin tengist en rakning stendur yfir.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Sagðist hann vongóður um að við værum að sjá til lands í baráttunni við faraldurinn innanlands og þakkaði það hertum aðgerðum í sóttvörnum fyrir páska.

„Ég bind mikl­ar von­ir við það að í lok þess­ar­ar viku, þeg­ar þess­ar þrjár vik­ur eru liðn­ar, og ný regl­u­gerð þarf að taka við að þá get­um við far­ið að slak­a á og við höf­um gert það,“ sagði Þórólfur í þættinum en bætti því við að ef eitthvað óvænt kæmi upp gæti enn þurft að viðhafa harðar sóttvarnaaðgerðir .

Þórólfur sagðist hafa áhyggjur af fyrirkomulagi vottorða hjá fólki, sem kemur frá löndum utan Schengen . Í minnisblaði hafi hann lýst þeirri skoðun sinni að slík vottorð yrðu einungis tekin gild frá fólki, sem kemur frá Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada. Það hafi ekki verið gert vegna þess að það hafi ekki verið talið lagalega framkvæmanlegt.

„Þannig að jú mér finnst svolítið bratt farið í þetta og þá er ég að hugsa um að opna landamærin því við erum með tiltölulega viðamiklar aðgerðir í gangi sem kosta mikinn mannafla og mikla vinnu og ef við förum að fá mjög mikið af fólki hingað inn þá gæti það gerst að við gætum bara ekki ráðið við það. Við gætum ekki staðið við allar þessar skuldbindingar, allar þessar aðgerðir og það er það sem ég var aðallega smeykur við.“