Orkufyrirtækið Gazprom segist vera "mjög nálægt" því að ná samkomulagi um gasvinnslu á hinu gríðarstóra Shtokman-svæði í Rússlandi. Milvægur liður í átt að því voru tilslakanir sem félagið gerði við erlend orkufyrirtæki um að heimila þeim að vera samstarfsaðilar að verkefninu, að því er Financial Times hefur eftir Alexander Medvedev, aðstoðarframkvæmdastjóra Gazprom.

Erlendu orkufyrirtækin sem um ræðir eru Statoil og Norsk Hydro (sem eru í samrunaferli um þessar mundir), Total of France og ConocoPhilips frá Bandaríkjunum. Ef af samkomulagi félaganna við Gazprom verður yrði mikilvægum áfanga náð, en það er talið að kostnaður verkefnisins sé í kringum tuttugu til þrjátíu milljarðar Bandaríkjadala.

Ummæli Medvedev benda til þess að Gazprom hafi breytt um skoðun varðandi aðkomu erlendu fyrirtækjanna að verkefninu, en í október á síðasta ári sagði Medvedev að þau gætu ekki fengið beina hlutafjáreign í Shtokman-verkefninu, heldur einungis unnið að því sem verktakar. Á þessu hefur hins vegar nú orðið breyting. Í samtali við Financial Times segir Medvedev að Gazprom sé í viðræðum við erlendu fyrirtækin um nýtt módel að samvinnu sem myndi heimila þeim að vera "samstarfsaðilar og um leið njóta hins efnahagslega ávinnings, útvega stjórnendur og deila hinni fjármála- og viðskiptalegu áhættu" með Gazprom að verkefninu.

Þarfnast sérfræðiþekkingar erlendu félaganna
Ein útfærsla sem um hefur verið rætt í þessu samhengi er að veita félögunum hlutafjáreign í fyrirtækinu sem yrði stofnað í kringum verkefnið, í stað dótturfélags Gazprom sem á leyfið til að vinna gas á Shtokman-svæðinu.

Medvedev segist búast við því að gasframleiðsla á svæðinu geti hafist í ársbyrjun 2013. Sumir sérfræðingar telja slíkt aftur á móti vera töluverða bjartsýni. Jonathan Stern, yfirmaður rannsókna við orkustofnun Oxford háskóla, er einn þeirra og segir að þrátt fyrir þátttöku erlendu fyrirtækjanna að verkefninu sé ólíklegt að gasframleiðsla verði hafin fyrir árið 2013.

Tilslökun Gazprom um að veita erlendu félögunum leyfi til að eiga hlut í verkefninu er að mati orkusérfræðinga talin endurspegla þá staðreynd að Gazprom þarfnast sárlega þeirrar sérfræðiþekkingar sem þau hafa upp á að bjóða til að geta unnið þetta erfiða verkefni.